Áburðardreifing

 Þau atriði sem hafa langmest áhrif á hvernig til tekst með dreifinguna eru:

- Áburðardreifarinn
- Áburðurinn
- Ökumaðurinn

 


Áburðardreifarinn

Algengustu áburðardreifarar hérlendis eru svokallaðir þyrildreifarar. Þeir eru einfaldir, ódýrir, liprir í notkun og afkastamiklir en galli við þessa dreifitækni er að vandasamt getur verið að ná fyrsta flokks dreifigæðum. Ef dreifigæðin eru ekki viðunandi verður nýting áburðarins verri og þannig getur tapast sá ávinningur sem felst í því að nota ódýrari dreifara. Sem dæmi um þann vanda sem við er að etja getum við tekið venjulega skurðaspildu sem er 40 m breið. Með venjulegum þyrildreifara passar ágætlega að fara fjórar ferðir (tvo hringi), þ.e.a.s. að nota vinnslubreiddina 10 m. Dreifikúrfa þyrildreifara er þannig löguð að það er erfitt að dreifa út á skurðarbakkana án þess að dreifa í skurðinn líka, og því er ekki fjarri lagi að gera ráð fyrir að helmingur vinnslubreiddarinnar í fyrsta hringnum fái að meðaltali einungis hálfan áburðarskammt. Þessi hluti er fjórðungur spildunnar (25%). Auk þessa getur breytileiki í áburðarmagni verið talsverður á öðrum hlutum spildunnar líka ef bilið á milli ferða er ekki nákvæmlega rétt. Með vaxandi áherslu á mengunarvarnir og umhverfisvernd getur svo farið að dreifiaðferðir sem byggjast á svo ónákvæmum vinnubrögðum geti á komandi árum þurft að víkja fyrir tækni sem þegar er fáanleg og byggir á nákvæmnisdreifingu á alla vinnslubreiddina.

  

 

Áburðurinn

Grundvöllur fyrir góðri áburðardreifingu er að gæði áburðarins séu í lagi. Einkenni á góðum áburði er að hann hefur mikinn kornastyrk, sem jafnasta rúmþyngd og eðlilega stærðardreifingu korna. Auk þess þarf áburðurinn að vera laus við ryk, laus við raka og köggla og laus við óhreinindi.

 

Dreifigæðin

Dreifimagnið á hverjum stað samanstendur af magni einnar ferðar, eða samanlögðu magni fleiri ferða, eftir því hve mikil skörunin er. Hver ferð hefur ákveðna dreifikúrfu, og samanlagðar kúrfur fleiri ferða mynda heildarkúrfu. Eins og sjá má á heildarkúrfunni á myndinni getur verið nokkur breytileiki í magninu, jafnvel þó að rétt vinnslubreidd sé notuð. Til þess að leggja mat á hve jöfn dreifingin verður er notaður breytileikastuðull (coefficient of variance), stundum kallaður sveiflustuðull.


Dæmigerð dreifikúrfa þyrildreifara.

Breytileikastuðullinn segir til um hversu mikið frávik er að meðaltali frá ætluðu áburðarmagni. Ef við ætlum t.d. að bera 100 kg N/ha og breytileikastuðull er 20%, þá eru 2/3 hlutar spildunnar með magn á bilinu 100 ±20 , þ.e.a.s. á bilinu 80–120 kg N/ha, 1/6 hluti fær minna en 80 kg N/ha og 1/6 fær meira en 120 kg N/ha. Til þess að dreifing teljist viðunandi má breytileikastuðull ekki vera hærri en 10%. Breytileikastuðullinn er mjög háður vinnslubreidd og hér má sjá dæmi um hvernig breytileikastuðull á venjulegum þyrildreifara getur litið út við mismunandi vinnslubreidd.

Eins og sjá má á myndinni er breytileikastuðullinn neðan við 10% eftir að vinnslubreiddin er komin niður fyrir 16 m, með þeirri undantekningu þó að í kringum 11 m skríður hann aðeins upp fyrir 10% en það er ekki mikið og því má segja í grófum dráttum að á meðan vinnslubreiddin á þessum dreifara er innan við 16 m þá er hægt að nota hvaða vinnslubreidd sem er með viðunandi árangri. Sýnu best eru þó dreifigæðin við 14 m og 7 m vinnslubreidd. Eftir að vinnslubreiddin fer yfir 16 m eykst breytileikastuðullinn stöðugt sem er einfaldlega vegna þess að það er orðið of langt á milli ferða þannig að dreifingin nær ekki að skarast nóg. Rétt er að taka fram að sumir þyrildreifarar með tveimur dreifiskífum geta náð ágætum dreifigæðum upp í um 20 m vinnslubreidd.

 

Dreifimagn

Við dreifingu áburðar er mikilvægt að ökumaðurinn hafi upplýsingar um áburðarrennsli úr dreifaranum, þ.e.a.s. það magn áburðar sem mismunandi stillingar dreifarans gefa. Þær upplýsingar eru nauðsynlegar til að geta valið rétta stillingu en rennslið ásamt vinnslubreidd og ökuhraða ákvarðar magn áburðar á hvern hektara. Ökumaður ákveður magn á hektara, vinnslubreidd og ökuhraða, og getur þá reiknað út hvaða rennsli hann þarf að stilla dreifarann á með eftirfarandi formúlu (1):

1) Rennsli (kg/mín.) = Áb.magn (kg/ha) x vinnslubr. (m) x ökuhr. (km/klst.) / 600

 

Tökum dæmi: Við ætlum að bera 500 kg/ha af Græði 6 á spildu sem er 48 m breið. Við erum með dreifara sem dreifir prýðilega við 12 m vinnslubreidd (breytileikastuðull innan við 10%) þannig að við veljum þá vinnslubreidd enda passar þá að aka tvo hringi. Við höfum valið okkur gír á dráttarvélinni sem gefur ökuhraðann 7,2 km/klst. Hvaða magnstillingu eigum við að velja á dreifaranum? Með því að setja áburðarmagnið, vinnslubreiddina og ökuhraðann inn í formúluna (1) fáum við út að rennslið þarf að vera 72 kg/mín. Við þurfum sem sagt að velja þá stillingu á dreifaranum sem gefur 72 kg/mín og þá þurfum við að hafa upplýsingar um hvaða stilling það er.

 

Aðferðir til að mæla rennslismagn

Hafi menn ekki aðgang að neinum upplýsingum um rennslismagn áburðardreifarans er hægt að mæla rennslið við tiltekna magnstillingu á dreifaranum með því að setja ákveðið magn af áburði í hann, t.d. 100 kg, dreifa svo úr honum á ákveðnum ökuhraða og annað hvort taka tímann sem það tekur að tæma dreifarann (a), eða mæla ekna vegalengd (b). Út frá því er svo hægt að reikna rennslið í kg/mín. með eftirfarandi formúlum:

a) Rennsli (kg/mín.) = áburðarmagn (kg) x 60 / tími (sek.)

b) Rennsli (kg/mín.) = áburðarmagn (kg) x ökuhraði (km/klst.) / ekin vegalengd (m) x 0,06

Á sumum dreifurum breytist rennslið þegar dreifarinn er að verða tómur, og getur það haft áhrif á þær mæliaðferðir sem hér um ræðir. Til að bregðast við því er einfaldast að setja talsvert magn í dreifarann, jafnvel heilan stórsekk, og taka tímann sem það tekur að dreifa honum. Þá eru áhrifin frá breyttu rennsli í lokin svo lítil að þau breyta heildarniðurstöðunni óverulega.

 Lárus Pétursson