Landgræðsla

1. Uppgræðsla

Ef markmiðið er að örva náttúrulega gróðurframvindu án þess að grös verði einráð er gott að nota væga áburðarskammta. Ef gróðurhula nær 5–10% þarf yfirleitt ekki að nota fræ. Þá er mælt  með að nota 100–150 kg /ha af Móða 1, Fjölmóða 1, Móða 3 eða Fjölmóða 2. Þennan skammt er ráðlagt að bera á í 2–5 ár. Á eldgosasvæðum er æskilegt að áburðurinn innihaldi brennistein, um 2%.

Ef landið er alveg gróðurlaust, eða ef markmiðið er að fá beitargróður strax, þarf áburð og grasfræ. Gott er að nota um 25–50 kg/ha af húðuðu grasfræi (eftir aðstæðum) og um 300–350 kg/ha af Móða 1, Fjölmóða 1, Móða 3 eða Fjölmóða 2 fyrsta árið. Síðan fer áburðargjöfin eftir markmiðum uppgræðslunnar. Ef örva á náttúrulega gróðurframvindu þarf um 100–150 kg/ha af Móða 1, Fjölmóða 1, Móða 3 eða Fjölmóða 2 í 3–5 ár. Ef viðhalda á grasvextinum til beitar þarf 150–250 kg/ha þannig að borið sé á helming svæðisins annað hvert ár eftir 2. árið.

Við uppgræðslu á rofabörðum þarf yfirleitt að nota fræ og áburð í sömu skömmtum og notaðir eru við uppgræðslu á gróðurlausu landi. Bestur árangur næst ef byrjað er á að koma lífrænum efnum, moði og skít, upp í börðin. Við uppgræðslu rofabarða er mikilvægt að bera á ofan á torfuna sjálfa og umhverfi rofabarðanna til að stöðva áfok á börðin og fá gróðurinn til að loka landinu.

Fylgjast þarf vel með ástandi lands sem verið er að græða upp og meta þörf fyrir áburðargjöf hverju sinni. Þar sem land er friðað þarf víða ekki  að bera á landið nema í 2–4 ár til að fullur árangur náist. Við beit þarf mun oftar að bera á eða í allt að 5–6 ár.

Gott er að hefja uppgræðslu á gróðurlausu eða mjög rýru landi með moði, heyrusli eða búfjáráburði og bera síðan á árið eftir. Þá er gott að bera á Kjarna eða annan köfnunarefnisáburð með lífræna áburðinum, t.d. 60 til 90 kg/ha.


2. Beit

Með áburði er hægt að auka uppskeru úthagans verulega og jafnframt bæta gæði gróðursins sem fóður fyrir búpening. Áburðurinn eykur hlutdeild bestu beitarplantnanna í gróðurbreiðunni. Uppskeruaukinn er víða lítill fyrsta árið sem borið er á en fer síðan vaxandi með aukinni hlutdeild grasa í gróðurhulunni. Gróðurfarsbreytingar af völdum áburðar taka víðast 1–4 ár eftir aðstæðum, og breytast flest gróðurlendi í graslendi við áburðargjöf en hlutfall annarra tegunda minnkar. Við erfið gróðurskilyrði verða breytingar á gróðurfari hægari. Ef áburðargjöf er hætt má reikna með að hlutfall heilgrasa minnki fjótlega aftur.

Áburðarsvörun er breytileg eftir landgæðum, gróðurlendum og veðurskilyrðum. Því er erfitt að gefa almennar leiðbeiningar um val á landi til áburðardreifingar og um áburðarmagn og tegund. Vanda þarf val á landi til áburðargjafar, bæði vegna umhverfissjónarmiða og árangurs. Einna mest áburðarsvörun virðist fást þegar borið er á tiltölulega rýr  gróðurlendi. Með vaxandi hæð yfir sjó minnka áhrif áburðarins. Mjög þurrt land, óframræst mýrlendi, lynggróður og mosaþembur svara illa áburðargjöf. Auk þess er óæskilegt að bera á slík gróðurlendi vegna umhverfissjónarmiða.

Þar sem borið er á til beitar má nota áburð sambærilegan Móða 1, Fjölmóða 1, Móða 3 eða Fjölmóða 2 fyrstu 3–5 árin en síðan þarf að bera á þrígildan áburð, eins og Græði 7, Fjölgræði 7, Græði 9 eða Fjölgræði 9.

 Stefán Skaftason