Kartöflur

Kartöflujurtin hefur fremur lélegt rótarkerfi. Þess vegna þurfa kartöflur annað hvort frjóan jarðveg eða allmikinn áburð. Á Íslandi eru kartöflur mikið ræktaðar í sandgörðum sem getur að hluta skýrt að Íslendingar hafa notað meira af áburði í kartöflugarða en þjóðirnar í kringum okkur.

Á árum áður báru menn mjög mikið á kartöflur. Þess vegna kann að vera að mörgum kartöfluræktendum þyki hér ráðlagðir of litlir skammtar. Skammtarnir eru minnkaðir í þeirri trú að gæði kartaflnanna aukist við það.

Eftirfarandi tölur gefa til kynna hve mikið er fjarlægt úr eins hektara kartöflugarði af næringarefnum í sæmilegu árferði. Miðað er við 180 hkg/ha uppskeru, 22% þurrefni í kartöflum, og notaðar eru efnagreiningar sem gerðar voru á kartöflum á Hvanneyri.

Köfnunarefni  60 kg/ha N Kalsíum   5 kg/ha Ca
Fosfór 6 kg/ha P Magníum 3,5 kg/ha Mg
Kalí  60 kg/ha K

Í þessu dæmi er miðað við meðaluppskeru. Eftir því sem uppskeran er meiri því meira er fjarlægt af áburðarefnunum. Það sem fer úr garðinum er aðeins hluti af þeim efnum sem kartöflujurtirnar taka upp. Í garðinum verða eftir kartöflugrös og rætur sem rotna, skolast út eða koma jarðargróða til góða næsta eða næstu ár.

  • Köfnunarefni. Ef of lítið er borið á af köfnunarefni dregur úr uppskeru. Ef skorturinn er mikill verða blöðin lítil og ljósgræn.Þegar um ofgnótt köfnunarefnis er að ræða verða kartöflugrösin stór en undirvöxtur lítill, einnig minnkar þurrefnið í kartöflunum. Orsökin er að köfnunarefni ýtir undir blaðvöxt og lengir þann tíma sem grösin eru í vexti. Það er ekki fyrr en blaðvexti er lokið að kartöflurnar fara að þroskast að nokkru marki. Í heimilisgarðrækt á Íslandi er algengt að of mikið sé borið á af köfnunarefni. Oft er borinn á stór skammtur af búfjáráburði og vænn skammtur af tilbúnum áburði. Þá er næsta víst að áðurnefnd einkenni um offramboð af köfnunarefni koma fram.
  • Fosfór hefur við venjulegar aðstæður minni áhrif á uppskerumagn en köfnunarefni. Hins vegar eykur fosfór þurrefnismagn og þar með matargæði kartaflna. Það er lítil hætta á að of mikið sé borið á af fosfór.
  • Kalí eykur uppskeru að því talið er vegna þess að kartöflurnar stækka. Ef mikið er borið á af kalí getur það minnkað þurrefni í kartöflunum. Þurrefni verður minna í kartöflum og fleiri nytjajurtum ef kalíklóríð er borið á miðað við að þær fái kalíið úr kalísúlfati. Kalíáburðurinn sem á að nota á kartöflur er kalísúlfat. Kalígjafinn í Blákorni, Græði 1, Græði 1a og Græði 1b er kalísúlfat.
  • Kalk er að öðru jöfnu ekki borið í kartöflugarða. Ef sýrustigið er hátt eru líkur á að margs konar sníkjusveppir ráðist á kartöflurnar, spilli útliti þeirra með kláðaútbrotum og geri mönnum örðugra um vik að geyma þær. Ef mikill kláði er á kartöflum er hægt að sýra jarðveginn. Það er gert með því að nota ammoníumsúlfat sem köfnunarefnisáburð. Þá verða menn að búa til eigin áburðarblöndu. Slík blanda fyrir 100 m2 kartöflugarð gæti t.d. verið þannig: 5,5 kg ammoníumsúlfat, 3 kg mónóammoníumfosfat og 3,5 kg kalísúlfat. Þessar áburðartegundir fást hjá Áburðarverksmiðjunni.
  • Önnur áburðarefni, svo sem magníum og bór, getur skort í stöku tilfellum en þessi efni eru bæði í Græði 1, Græði 1b og Blákorni. Ef vel með farinn búfjáráburður er borinn á ætti skortur á þessum efnum ekki að valda vandræðum.
Ef of lítið er borið á af köfnunarefni dregur úr uppskeru. Ef skorturinn er mikill verða blöðin lítil og ljósgræn.Þegar um ofgnótt köfnunarefnis er að ræða verða kartöflugrösin stór en undirvöxtur lítill, einnig minnkar þurrefnið í kartöflunum. Orsökin er að köfnunarefni ýtir undir blaðvöxt og lengir þann tíma sem grösin eru í vexti. Það er ekki fyrr en blaðvexti er lokið að kartöflurnar fara að þroskast að nokkru marki. Í heimilisgarðrækt á Íslandi er algengt að of mikið sé borið á af köfnunarefni. Oft er borinn á stór skammtur af búfjáráburði og vænn skammtur af tilbúnum áburði. Þá er næsta víst að áðurnefnd einkenni um offramboð af köfnunarefni koma fram.

 

Áburðarskammtar

Á Íslandi eru kartöflur ræktaðar hjá kartöflubændum í stórum görðum og í mörg þúsund litlum heimilisgörðum. Jarðvegur í kartöflugörðum landsmanna er mjög mismunandi. Í tillögunum sem hér eru gerðar er meira borið á sandgarða en moldargarða vegna þess að næringarefni skolast frekar úr sandinum. Eins og ætíð fer það eftir aðstæðum á hverjum stað hve mikið er ráðlegt að bera á, þess vegna er skynsamlegt að nota ráðleggingar eins og hér eru gefnar ásamt eigin hyggjuviti.

 

 

Tillögur um áburð á eins hektara kartöflugarð

kg N kg P kg K
Moldargarður 900 kg Græðir 1, Blákorn eða Græðir 1b 108 58 127
900 kg Græðir 1a 108 76 142
25 tonn kúamykja blönduð vatni og 500 kg Græðir 1, Græðir 1b eða Blákorn 10 39 108
Sandgarður 1100 kg Græðir 1, Blákorn eða Græðir 1b 132 70 155
1100 kg Græðir 1a 132 92 174
35 tonn kúamykja blönduð vatni og 550 kg Græðir 1, Blákorn eða Græðir 1b 135 44 132

 
Þeir sem eru með litla garða geta deilt í allar tölur með 100 og þá fást sambærilegir skammtar á 100 m2 garð.      

  • 900 kg/ha verða 9 kg á 100 m2
  • 500 kg/ha verða 5 kg á 100 m2
  • 20 tonn/ha verða 200 kg á 100 m2         

Í staðinn fyrir 30 tonn af vatnsblandaðri mykju má nota 25 tonn af óblandaðri mykju, 16 tonn af sauðataði eða 30 tonn af hrossataði.

Búfjáráburður nýtist best ef hann er plægður niður strax og hann hefur verið borinn á. Það er einnig best að fella tilbúinn áburð niður í jörðina um leið og kartöflurnar eru settar niður. Áburðurinn á að vera nálægt móðurkartöflunni en helst ekki að snerta spírurnar.

 

Magnús Óskarsson