Korn

Af þeim nytjajurtum sem bændur rækta á Íslandi er trúlega einna mestur vandi að bera rétt á byggakra. Ef of mikið er borið á af köfnunarefni spretta byggplönturnar vel, þær verða blaðmiklar og dökkgrænar en í rigningartíð er hætt við að byggið leggist í legu. Afleiðingin er sú að kornið þroskast seint og illa og erfitt verður að uppskera það. Ef of lítið er borið á stendur kornið vel og þroskast snemma en hætt er við að uppskeran verði lítil. Ef mikið er borið á af fosfór þroskast byggið snemma en það dregur úr kornuppskeru.

Það er mjög mikilvægt að borið sé jafnt á kornakra. Þess vegna er æskilegt að nota sáðvél sem fellir áburðinn niður með sáðkorninu. Þeir sem hafa ekki aðgang að slíkum tækjum verða að bera á með góðum áburðardreifara og vanda verkið.

Búfjáráburður hentar illa í kornrækt vegna þess að erfitt er að giska á hve mikið er borið á af áburðarefnum og jafnvel með góðum dreifurum er afar örðugt að dreifa áburðinum jafnt yfir akurinn. Þar að auki virkar búfjáráburður seint þannig að byggið hefur of lítið af köfnunarefni fyrri hluta sumars og of mikið þegar líður á sumarið. Þetta getur valdið því að kornið helst of lengi grænt.

Þýðingarlaust er að reyna byggrækt í súrum jarðvegi. Æskilegt sýrustig jarðvegs fyrir byggrækt er pH 5,5–6,5. Ef jörðin er súr verður kornið lágvaxið og gisið og skilar lítilli uppskeru. Þess vegna er sjálfsagt fyrir þá sem eru að hugsa um að hefja kornrækt að láta mæla sýrustig jarðvegs í væntanlegum ökrum. Ef sýrustigið er of lágt verða menn að meta hvort rétt sé að hætta við áform um kornrækt, eða kalka.

Það er ódýrast að kalka með skeljasandi. Ef þörf er á að kalka er sennilega viðráðanlegast að bera kalkið á akurinn tvö ár í röð og nota 2–3 tonn/ha í hvort sinn. Rétt er að kalka á haustin og plægja kalkið niður. Sé þessari aðferð beitt liggur skeljasandurinn ekki allur í einu lagi í jörðinni.

Tillögur um áburðargjöf á byggakur

Áburður kg/ha Næringarefni kg/ha
N P K

Frjósöm mýrarjörð
eða endurunnið tún

250–400 Græðir 1 30–48 16–26 35–56
250–400 Græðir 1a 30–48 21–34 40–63
200–300 Græðir 5 30–45 13–20 25–37
200–300 Fjölgræðir 5 32–48 13–20 20–30
Mólendi og melar 350–550 Græðir 5 53–83 23–36 43–68
300–500 Fjölgræðir 5 48–80 20–33 30–50
Sandjörð 450–550 Græðir 6 eða Fjölgræðir 6 90–110 20–24 37–46
450–550 Græðir 7 eða Fjölgræðir 7 90–100 23–29 30–36


Taflan er aðallega til leiðbeiningar fyrir þá sem eru að stíga fyrstu skrefin í kornrækt. Með reynslunni læra menn að meta hvað hentar að nota af áburði á hverjum stað. Þó hendir það reynda kornræktarbændur að bera of lítið eða of mikið á akra sína, m.a. vegna þess að nýting áburðarins og þroski kornsins fer eftir tíðarfari.

Magnús Óskarsson