Grænmeti og jarðarber

Kalk. Allar þær jurtir sem hér er fjallað um þola illa súran jarðveg. Þess vegna er ráðlegt að kalka garðinn ef sýrustig jarðvegs er t.d. lægra en pH 5,5–5,8. Æskilegt er að fagmaður leiðbeini um hve mikið á að kalka. Það veldur þó varla skaða ef 400–800 kg/1000 m2 af skeljasandi eru unnin niður í jarðveginn. Rétt væri að láta mæla sýrustigið á 4–5 ára fresti. Við kölkun batna lífsskilyrði örvera sem mynda kláðahrúður á kartöflum. Þess vegna er óráðlegt að rækta kartöflur í garði sem nýlega hefur verið kalkaður.


Kalísúlfat og kalíklóríð.
Kalíáburður er aðallega tvenns konar; kalíklóríð þar sem kalíið er bundið klór, og kalísúlfat þar sem kalíið er bundið efnasambandi með miklum brennisteini. Þurrefni minnkar í kartöflum og flestum þeim matjurtum sem fjallað er um í þessum pistli ef kalíklóríð er borið á. Þó má segja að kalíklóríð spilli ekki spínati, hvítkáli eða rauðkáli. Í Græði 1, 1a, 1b og Blákorni er kalí bundið í kalísúlfat. Þess vegna eru þessar áburðartegundir notaðar í garðrækt.


Bór
er snefilefni sem er nauðsynlegt fyrir káltegundirnar, gulrófur, spínat, salat og gulrætur. Af því leiðir að nota á Blákorn, Græði 1 eða Græði 1b á þessar tegundir. Noti menn eigin áburðarblöndu á fyrrnefndar matjurtir ættu þeir að nota Bórax 1,5–2 kg/1000 m2. Í þvagi dýra er allmikill bór. Ef vel er farið með búfjáráburð, þ.e. þvagið ekki látið renna í burtu áður en áburðinum er dreift, ætti ekki að vera þörf á tilbúnum bóráburði.       

Það er ætíð mikil óvissa um hve mikið af áburðarefnum er í búfjáráburði. Þess vegna er í dæmunum hér á eftir gert ráð fyrir mjög misgóðum búfjáráburði. Hæstu tölurnar eru yfir líklegt áburðarmagn ef búfjáráburðurinn er mjög góður, þ.e. úr góðri áburðargeymslu, en lægstu tölurnar gefa til kynna áburðarmagn þegar búfjáráburðurinn er lélegur.

 

Tillaga um áburð á gulrófur, næpur og gulrætur m.v. 1000 m2

kg N kg P kg K
75–125 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b 9–15 5–8 11–18

3 tonn óblönduð kúamykja, 2 tonn sauðatað eða
3,5 tonn hrossatað. Með búfjáráburðinum þarf
0–50 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b

7–14 2–7 7–14
Þetta eru áburðarfrekar jurtir sem þurfa bór.
Stærð skammta fer eftir frjósemi jarðvegs


Tillaga um áburð á hvítkál, rauðkál, blöðrukál, blómkál og spergilkál m.v. 1000 m2

kg N kg P kg K
150–200 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b 18–24 10–13 21–28

120–170 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b
að vori og 20 kg af Magna 2 að sumri

18–24 8–11 17–24

3 tonn óblönduð kúamykja, 2 tonn sauðatað eða
3,5 tonn hrossatað. Með búfjáráburðinum þarf 
75-100 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b

16–20 6–10 18–24

Þetta eru mjög áburðarfrekar jurtir sem þurfa bór. Auðveldast er að nota Græði 1, Græði 1b eða Blákorn vegna þess að í þeim er bór. Vegna hættu á sýkingu af völdum salmonellu og kamfýlóbakters ætti ekki að nota nýjan búfjáráburð. Stærð skammta fer eftir frjósemi jarðvegs.

Blómkál er viðkvæmt fyrir molybdenskorti, þess vegna er æskilegt að úða plönturnar með molybdati áður en plantað er út. Það má leysa 2 g af ammoníummolybdati upp í 10 lítrum af vatni og úða lausninni á 25 plöntur.

 

Tillaga um áburð á hreðkur (radísur) m.v. 1000 m2

kg N kg P kg K
50–80 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b 6–10 3–5 7–11


Hreðkur eru harðgerðar og hraðvaxta. Þær þurfa bór og þess vegna er rétt að bera Græði 1, Græði 1a eða Blákorn á þær. Vaxtartími hreðka er stuttur og þær eru oft borðaðar hráar, þess vegna er óráðlegt að bera á þær búfjáráburð, a.m.k. ekki nýjan búfjáráburð.

 

Tillaga um áburð á kínakál, blaðkál, salat og spínat m.v. 1000 m2

kg N kg P kg K
60–100 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b 7–12 4–6 8–14


Vegna hættu á sýkingu af völdum salmonellu og kamfýlóbakters er varasamt að bera búfjáráburð á þessar jurtir, a.m.k. ekki nýjan búfjáráburð. Það er óráðlegt að bera mikið af köfnunarefni á þetta grænmeti því að þá er hætt við að nítrat safnist fyrir í blöðum þess. Nítrat er efni sem getur valdið sjúkleika hjá fólki, einkum hjá ungum börnum og magaveiku fólki.

 

Tillaga um áburð á jarðarber árið sem þau eru gróðursett og berjaárin sem á eftir fara, m.v. 1000 m2

kg N kg P kg K

Árið sem gróðursett er:

2,5 tonn óblönduð kúamykja, 2 tonn sauðatað eða
3 tonn hrossatað. Með búfjáráburðinum þarf
10–20 kg af mónóammoníumfosfati

7–10 4–8 6–10

30–50 kg af Græði 1, Blákorni eða Græði 1b og
10–20 kg af mónóammoníumfosfati 

5–8 4–8 4–7

Berjaár:

25–50 kg af Græði 1, Græði 1a eða Blákorni

3–6 2–3 4–7


Jarðarber eru fjölær og vaxa á sama stað í nokkur ár. Ef sýrustig er t.d. lægra en pH 5,5 getur verið þörf á að kalka með 250–500 kg/1000 m2 af skeljasandi.

Það er ágætt að bera búfjáráburð í garðinn fyrir gróðursetningu, eins og getið er um í töflunni. Í frjóum jarðvegi er ráðlegt að halda sig við litla skammta því að mikið köfnunarefni eykur blaðvöxt og dregur úr berjamyndun. Berjaárin á að bera lítið á. Ef blaðvöxtur er mikill er ráðlegt að bera ekkert á næsta ár.
     

 Magnús Óskarsson