Búfjáráburður

Í eftirfarandi töflu eru samt gefnar upp tölur um líklegt áburðarmagn sem fellur til eftir grip í húsum. Tölurnar má nota til að leggja gróft mat á hve mikið er til ráðstöfunar af búfjáráburði á búi.

Líklegt áburðarmagn sem fellur til á ári eftir grip á húsi

Óblönduð mykja eftir mjólkurkú með 17% þurrefni  11–12 tonn
Vatnsblönduð mykja eftir mjólkurkú með 10% þurrefni 18–20 tonn
Tað eftir á 300–500 kg
Tað eftir hest 20 kg á innistöðudag
Skítur eftir fullorðið svín um 4 tonn
Skítur eftir grís um 2 tonn

Eftirfarandi atriði má hafa til hliðsjónar við notkun á búfjáráburði:

 • Nýting áburðar fer eftir því hvenær borið er á, hvernig veðurfar er eftir dreifingu áburðarins og hvort vatni hefur verið blandað í áburðinn.
 • Forðast ber að dreifa búfjáráburði á snjó eða svell, vegna hættu á að hann skolist í burt. Við það glatast áburðarefni og áburðurinn getur valdið mengun í vötnum og ám.
 • Dreifa má vatnsblandaðri kúamykju á tún á milli slátta. Þá er rétt að bera strax á eftir að heyið er farið af túninu til að grösin brenni síður.
 • Á flestum stöðum er best að bera búfjáráburð á í byrjun gróanda. Nú á tímum eru það annir við bústörf sem ráða meiru um það hvenær búfjáráburðinum er dreift en á hvaða dreifingartíma áburðurinn nýtist best.
 • Nauðsynlegt er að hlífa túnum við umferð áburðardreifara ef þau eru blaut.
 • Ef mikið er af sagi, tréspónum eða moði í búfjáráburði getur það orðið til þess að köfnunarefnið í áburðinum nýtist verr.
 • Þar sem úrkoma er lítil getur haustdreifing búfjáráburðar heppnast vel. Þó er dreifing að hausti varhugaverð þar sem hætta er á kali.
 • Við geymslu búfjáráburðar geta myndast lofttegundir sem eru eitraðar fyrir menn og skepnur. Varast ber að anda að sér lofti úr áburðargeymslum þegar verið er að hræra í áburðinum við útakstur. Einnig verður að gæta þess að eitrað loft fari ekki inn í gripahús þegar verið er að aka skít úr viðtengdu haughúsi nema loftræsting hjá gripunum sé þeim mun betri. Ef hættan er mikil verður að láta skepnurnar út.
 • Flestir nota búfjáráburð og tilbúinn áburð saman til að tryggja góða uppskeru. Þá hentar vel að nota Græði 4, Græði 9, Fjölgræði 9 eða Fjölgræði 2. Í þessum tegundum er mikið köfnunarefni miðað við fosfór og kalí.
 • Köfnunarefni í búfjáráburði nýtist best ef áburðurinn er plægður, herfaður eða tættur niður í jörðina. Þá rýkur minnst af köfnunarefni úr áburðinum. Þess vegna hentar búfjáráburður vel í nýræktar- og grænfóðurflög.
 • Mörgum bændum er illa við að nota búfjáráburð í flög ef þá grunar að í honum sé mikið af illgresisfræjum. Fræ margra illgresistegunda fara óskemmd í gegnum meltingarfæri gripa og berast með búfjáráburði á tún og akra.
 • Búfjáráburður nýtist vel á kartöflur, gulrófur og nokkrar aðrar matjurtir. Vegna sýkingarhættu, t.d hættu á salmonellu- eða kamfýlóbaktersýkingu, ber að varast að bera nýjan búfjáráburð á grænmeti sem er borðað hrátt.
 • Ef beitt er á land sem nýr búfjáráburður hefur nýlega verið borinn á er hætta á að búféð geti smitast af iðraormum.
 • Búfjáráburður hentar vel til uppgræðslu lands.
 • Í fóðri svína er tiltölulega mikið af snefilefninu kopar. Þess vegna getur orðið tiltölulega mikið af kopar í svínaskít og þar með í jurtum sem skíturinn er borinn á. Kopar er öllum dýrum nauðsynlegur í litlum mæli en sauðfé þolir aðeins mjög lítið af honum og getur veikst af kopareitrun ef það er fóðrað á fóðri af túni eða akri sem svínaskítur hefur verið borinn á.

Áætlað áburðargildi í búfjáráburði, kg í tonni
Áburður Þurrefni % Köfnunarefni, N Fosfór, P Kalí, K
Kúamykja, góð meðferð 17 2,5–3 0,5–1 3–4
Kúamykja, léleg meðferð 17 2–2,5 0,5–1 2–3
Kúamykja, vatnsblönduð 10  2–2,5 0,25–0,5 1,5–2
Sauðatað 30 3–5 1–2 4–6
Sauðatað, vatnsblandað 10 1–2 0,25–0,5 2–4
Hrossatað 20 1–3 1–1,5 2–3
Svínaskítur 10 2–4 1–1,5 2–3

 

Í einu tonni af óblandaðri kúamykju er um 1,5 kg af kalsíum, 1 kg af magníum og 0,8 kg af brennisteini auk snefilefna. Í öðrum tegundum búfjáráburðar er svipað magn af þessum efnum.

Efnamagn í búfjáráburði er mismunandi eftir fóðrun gripa, afurðum þeirra og aðstæðum við geymslu áburðarins. Þegar taflan um áburðargildi er notuð verður að leggja mat á hve góður búfjáráburðurinn er, t.d. gera sér grein fyrir hvort meðferð áburðarins er léleg eða góð og reikna áburðargildi hans á þeim forsendum. Rétt er að taka fram að tölurnar í töflunni byggjast á fremur fáum efnagreiningum.

Köfnunarefni í búfjáráburði nýtist illa vegna þess að það gufar upp sem ammoníak. Þannig tapast köfnunarefnið í geymslu, við dreifingu áburðar og þar sem hann liggur á jörðinni. Ef áburðurinn er blandaður með vatni tapast minna af köfnunarefni.

Það færist í vöxt að búa til safnhauga úr matarúrgangi og öðrum lífrænum leifum. Yfirleitt er þetta sett í haug sem er troðinn saman og vökvaður annað slagið. Sumir láta kalk og fosfóráburð í hauginn. Á Íslandi gengur seint að láta safnhauga rotna vegna lágs hitastigs. Safnhaugaáburður er notaður á svipaðan hátt og búfjáráburður og venjulega felldur niður í jarðveginn.

Magnús Óskarsson