Fosfór (P)

Sums staðar á Íslandi gengur losun fosfórs úr efnasamböndum svo treglega að gróður þrífst mjög illa eða ekki. Þannig er ástandið t.d. víða í mýrarjarðvegi á Faxaflóaundirlendinu.Grös sem skortir fosfór (Magnús Óskarsson) Leysanleiki fosfórs í áburði er rannsakaður með því að mæla hve mikill hluti af fosfóráburði leysist upp í vatni eða sítrónsýru. Vatnsleysanlegur fosfór í áburði verður aðgengilegur fyrir jurtir þegar hann hefur leyst upp í jarðvatninu.

Skortseinkenni: Skortur á fosfór hjá grösum og mörgum öðrum nytjajurtum lýsir sér þannig að plönturnar verða dökkgrænar eða blágrænar að lit. Rætur verða óeðlilega litlar. Komi þessi einkenni fram á káli, gulrófum eða öðrum jurtum af krossblómaætt er rétt að athuga hvort kálmaðkur hafi ekki skemmt ræturnar þannig að geta jurtanna til að taka upp fosfór eða önnur næringarefni sé skert og þær sýni einkenni næringarskorts.

Um mismunandi fosfór í áburði

Það er mismunandi hvernig nýtanlegur fosfór er gefinn upp í áburði, annars vegar í vatnsleysanlegan og hins vegar í sítratleysanlegan. Mismunandi er eftir tegundum áburðarins hvert hlutfall þessara fosfat-forma er, en það fer eftir framleiðsluaðferðinni.

 

Í öllum áburði sem Áburðarverksmiðjan framleiðir eru yfir 90% fosfórsins í vatnsleysanlegu formi. Þessar tvær fosfatgerðir nýtast plöntum á mismunandi hátt en á mynd 1 má sjá hvernig mismunandi form nýtast plöntum. Plöntur geta nýtt vatnsleysanlegan fosfór strax en sítratleysanlegur fosfór verður að mestu að umbreytast áður en plönturnar geta tekið hann upp. Þessi umbreyting getur tekið marga daga og jafnvel margar vikur þar sem jarðvegur er kaldur.

Almennt er það talið til bóta ef áburðurinn inniheldur meira af vatnsleysanlegum fosfór, en ýmsir þættir hafa þar áhrif eins og jarðvegstegund, hvernig og hvenær áburðurinn er borinn á, kornastærð, fosfórþörf plöntunnar og veðurskilyrði.

Hár vatnsleysanleiki er talinn sérstaklega til bóta við eftirfarandi skilyrði:

  • Í köldu loftslagi og köldum jarðvegi
  • Þar sem vaxtartími er stuttur
  • Fyrir plöntur með lítil rótarkerfi
  • Fyrir fosfór-þurftafrekar plöntur
  • Fyrir einærar plöntur, sem eru að vaxa upp af fræi, svo sem korn, grænfóður og grænmeti sem sáð er til

Það er því ljóst að við íslenskar aðstæður, þar sem loftslag er kalt og vaxtartími er stuttur, skiptir vatnsleysanleiki fosfórsins miklu máli.

Rannsókn sem framkvæmd var í Danmörku á mismun á vatnsleysanlegum og sítratleysanlegum fosfór sýndi að upptakan af fósfór og köfnunarefni vex eftir því sem meira er af vatnsleysanlegum fosfór í áburðinum. Í þessari sömu tilraun kom einnig í ljós að ef notaður er áburður með litlu magni af vatnsleysanlegum fosfór seinkar það upptöku á fosfati um 12–14 daga miðað við notkun á fosfór með 95% vatnsleysanleika. Þessar niðurstöður eru úr dönskum kertilraunum en ætla má að á Íslandi þar sem er mun kaldara gæti seinkunin verið mun meiri.