Kalsíum (Ca)

Kalsíum myndar kalk, ásamt kolefni, súrefni og í sumum tilfellum vetni. Kalk hækkar sýrustig í jarðvegi en við það losna mikilvæg næringarefni og eitruð efni bindast. Þess vegna verður jarðvegurinn frjórri. Það þýðir að kalk er að litlum hluta áburður en aðallega jarðvegsbótaefni. 

Kalsíum er eitt af þeim frumefnum sem hafa næringargildi fyrir jurtir. Venjulega er það mikið kalsíum í jarðvegi að ekki er ástæða til að óttast kalsíumskort í gróðri. Kalsíum er aðalhluti kalks, sem er mikilvægt til jarðvegsbóta.

Hlutverk kalks til jarðvegsbóta er:

 • Að eyða sýru eða öllu heldur vetnisjónum og eitruðum efnum. Flestar tegundir jurta þrífast illa í súrum jarðvegi.
 • Að losa jurtanærandi efni, svo sem fosfór, molybden og magníum úr torleystum samböndum.
 • Að bæta jarðvegsbygginguna. Kalkið eykur samloðun fastra efna þannig að holrými myndast fyrir vatn, loft og rætur.

Kalk til jarðvegsbóta. Á norðlægum slóðum er eðlilegt að jarðvegur súrni vegna rotnunar lífrænna efna og útskolunar efna, þar á meðal kalks. Einnig súrnar hann vegna notkunar á tilbúnum áburði. Ef kalsíum er í áburði getur það dregið ofurlítið úr sýringunni. Búfjáráburður dregur einnig úr sýrumyndun.

Nytjajurtir þrífast misvel í súrum jarðvegi. Kartöflur þola súran jarðveg allvel. Í lítið súrum jarðvegi eru venjulega kláðasveppir, sem ráðast á kartöflurnar og gera þær óhrjálegar útlits. Þess vegna er ekki ráðlegt að kalka kartöflugarða eða rækta kartöflur í landi sem kalkað hefur verið 2–4 árum áður en kartöflurækt hefst.

Túngróður þolir veiksúran jarðveg vel. Vallarfoxgras og vallarsveifgras eru talin góð túngrös en þau þola illa mjög súran jarðveg og hverfa. Lakari grastegundir, svo sem língresi og snarrót, geta þá orðið allsráðandi.

Þegar tún eru kölkuð er vaxtarauki ekki alltaf auðsær en getur engu að síður borgað kostnaðinn. Við kölkun eykst kalsíum í jurtum sem gerir fóður og mat hollari. Kölkun kostar töluvert fé og þess vegna er vafasamur hagnaður af því að kalka léleg tún sem eru t.d. blaut vegna þess að skurðir eru uppgrónir og sinna ekki hlutverki sínu.

Gulrófur, kál og flestar aðrar matjurtir, ásamt grænfóðurtegundunum repju og fóðurnæpum, þola illa súran jarðveg. Sáðbeð slíkra jurta þarf oftar en ekki að kalka. Grænfóðurhafrar þola allsúran jarðveg, eru líklega í sama flokki og túngrösin. Belgjurtir, svo sem smári, sérstaklega rauðsmári, þola illa súran jarðveg. Þá er tilgangslítið að reyna að rækta bygg í súrum jarðvegi.

Sýrustig er mælt í pH-einingum. Eftir því sem pH-einingin er lægri tala, því súrari er jarðvegurinn. Mæling á pH-gildi jarðvegs er frekar ódýr aðferð við rannsóknir á því hve súr jarðvegur er og þess vegna mjög mikið notuð. Það er æskilegt að láta mæla sýrustig í ræktunarjörð á 4–5 ára fresti. Í íslenskum jarðvegi er sýrustigið venjulega á bilinu pH 4,2–6,5. Þar sem áfok er lítið er jarðvegur oft súr.

Kalkþörf jarðvegs

pH hærra en 6  Ólíklegt er að kalk auki uppskeru algengra íslenskra nytjajurta.
pH 5,5–6 Ólíklegt er að uppskera aukist við kölkun á túni.
pH 4,8–5,4 Líklegt er að kölkun auki uppskeru á vallarfox- eða vallarsveifgrastúnum en óvíst að kölkunin hafi áhrif á uppskeru á gömlum língresistúnum.
pH lægra en 4,7 Kölkun eykur uppskeru flestra nytjajurta.

Kalkgjafar á íslenskum markaði eru nokkrir. Í mörgum áburðartegundum er dálítið af kalsíum en í flestum þeirra er það of lítið til að hafa merkjanleg áhrif á sýrustig jarðvegs. Kalsíum í áburði eykur hins vegar kalsíum í uppskeru og gerir hana að hollara fóðri.

 • Magni 1 með 7,7% kalsíum og sérstaklega Magni 2 með 15,4% kalsíum ættu að hækka sýrustig jarðvegs lítillega við árlega notkun.
 • Áburðarverksmiðjan selur bæði harpaðan og óharpaðan skeljasand í stórsekkjum eða í lausri vigt. Í skeljasandi er dálítið af magníum, sem er kostur.
 • Áburðarkalk frá Áburðarverksmiðjunni er með 5% köfnunarefni. Nauðsynlegt er að reikna með köfnunarefninu þegar áburðarkalk er notað. Í einu tonni af áburðarkalki eru 50 kg af köfnunarefni.
 • Haustið er besti tíminn til að dreifa skeljasandi á tún, þá hefur sandurinn tíma til að komast niður í grassvörðinn fyrir næsta sumar.
 • Það getur valdið tapi á köfnunarefni ef áburðarkornin og skeljasandurinn snertast og þess vegna á ekki að kalka um leið og borið er á að vorinu.
 • Dólómítkalk er mjög fínt og verkar fljótt. Það er dýrt og aðallega notað af garðyrkjumönnum.
 • Skeljasand er aðallega að finna í fjörum Faxaflóa og Breiðafjarðar. Þeir sem búa nærri skeljasandsfjörum geta notað skeljasand beint úr fjörunni. Í skeljasandinum er basaltsandur sem ekki spillir sprettu en hnullungssteinar geta torveldað dreifingu og slátt. Grófur skeljasandur leysist seint upp en áhrif hans á sýrustigið vara lengur en ef sandurinn er fínn.
 • Hafa ber í huga að flutningskostnaður getur orðið verulegur hluti kalkverðs.

Dreifing á kalki. Það á ekki að dreifa skeljasandi með venjulegum áburðardreifara vegna þess að sandurinn vill fara inn í legur og eyðileggja þær. Sum búnaðarfélög eiga sérstaka kalkdreifara með vel lokuðum legum. Ef slíkur dreifari er ekki fyrir hendi getur verið erfiðleikum bundið að dreifa skeljasandi á tún.

Í flög er venjulega notað miklu meira af skeljasandi eða öðrum kalkgjöfum en þegar sandinum er dreift á tún. Magnið er svo mikið að það má dreifa honum beint af vagni eða bíl með skóflu. Síðan er sandinum blandað við jarðveginn með herfi eða tætara. Þetta er góð aðferð til að lagfæra sýrustig í matjurtagörðum og á grænfóður- og kornökrum.

Kalkgjafar

Tonn eða kg á ha Athugasemdir
Skeljasandur dreift á tún 3 t Dreift með kalkdreifara eða með höndum.
Skeljakalk í flög 5–10 t Dreift með kalkdreifara eða mokað með skóflu úr vagni.
Magni 2 á tún 500 kg Dreift með venjulegum áburðardreifara. Í 500 kg af Magna 2 eru 100 kg N og kalkmagnið svarar til 225 kg af skeljasandi.
Áburðarkalk 2 t Í 2 tonnum eru 100 kg af N.

Það er dýrara að nota kalkríkan áburð en skeljasand til að breyta sýrustigi jarðvegs. Hins vegar virkar kalk í áburði fljótar og vinna við kölkun er auðveldari og dreifist á mörg ár.

Magnús Óskarsson