Magníum eða magnesíum (Mg)

Graskrampi. Ef magníum skortir í fóður geta kýr og jafnvel ær fengið graskrampa. Hann lýsir sér með áköfum krampa sem getur dregið gripina til dauða á skömmum tíma. Graskrampi kemur líklega oftast þegar gripum er beitt á land eða þeir fóðraðir með heyi af túnum sem nýbúið er að bera kalí á. Kalí getur tafið fyrir upptöku á magníum og þannig orðið óbein orsök á magníumskorti í jurtunum, sem aftur leiðir til graskrampa hjá gripum. Margir bændur óttast graskrampa hjá kúm sínum og telja því öruggara að nota áburðarblöndur með magníum.