Steinefnaskortur hjá hrossum

Einkennilega lítið hefur verið fjallað um steinefnaskort í umræðunnium lága og lækkandi fyljunarprósentu og aðra kvilla sem hrjá íslenska hestinn, þ.á.m. sumarexem og spatt.
Á árum áður á meðan hross voru almennt rekin í afrétt gátu þau bjargað sér með hin ýmsu steinefni beint úr náttúrunni. Einnig var algengt að hross fengju saltsíld á útigangi, en í heilli saltaðri síld er mikið magn steinefna. Með tilkomu Salmonellu var þessi vetrarfóðrun nánast úr sögunni. Á seinni árum hefur verið þrengt hægt og bítandi að beitarhólfum, þannig að ormasýking og steinefnaskortur hefur stóraukist.

Blóðsýni sem tekin hafa verið úr hrossum sýna mjög lágt hlutfall Selens, sem síðan hefur víðtæk áhrif á getu hesta og heilbrigði. Telja má öruggt að steinefnaskortur hái nánast öllu ungviði hér á landi, og virðist það vera almenn skoðun manna að beinagrindin sem er að vaxa í ungviði þurfi ekkert byggingaefni. Þarna kemur steinefnaskortur harðast niður þ.e. á ungviðinu. Íslenski hesturinn hefur og verið auglýstur erlendis sem harðgerður lítill hestur og nægjusamur. Svo langt hefur þetta gengið að útlenskir hafa talið hann geta lifað af lofti og snjó, og eru þeir ekki einir um það, því miður er ekki alveg búið að útrýma þessari trú hérlendis heldur. Við íslenskir hestamenn verðum að taka þessi mál fastari tökum og líta á steinefnagjöf sem sjálfsagðan þátt í fóðrun hrossa.

Margar leiðir eru til þess fallnar að leysa þessi mál og vil ég hér benda á nokkrar:

Útigangshross: Steinefnastampur, 20 kg. Plastfata með steinefnum blönduðum upp í melassa, þar sem hrossin hafa frjálsan aðgang að steinefnum, og taka þau eftir þörfum. Steinefnakeila er steinefnafóðrari, sem hafður er úti og þolir vind-og vatnsálag mjög vel. Í hann eru notuð kurluð steinefni, sem ætluð eru til sjálffóðrunar. Í Steinefnakeiluna má einnig blanda grófu salti saman við steinefnin.
Hross á húsi: Margar steinefnablöndur eru í boði, sem þarf að skammta hrossum. Hafa verður í huga við val á slíkum blöndum að sumar þeirra eru ætlaðar vinnuhestum erlendis sem eru fóðraðir á allt annan hátt en við fóðrum hér á landi. Uppistaðan í fóðrun á Íslandi er heyfóður, og verður að taka tillit til þess þegar valin er steinefnablanda.

Hestamín steinefnablandan frá Fóðurblöndunni h.f. er samsett eftir íslenskri uppskrift, en framleidd í Danmörku. Það sem gerir þessa blöndu frábrugðna öðrum steinefnablöndum á markaðinum er að uppskriftin er íslensk og blandan köggluð í 7 mm köggla með hveiti sem burðarefni og bragðefnum. Kostnaður við fóðrun á slíkri blöndu er 10 - 20 kr. pr. hest á dag, en ábatinn er ótrvíræður. Heilir sterkir hófar sem halda járningu í meira en 5 vikur. Fallegri og glaðlegri hestar með ónæmiskerfi í lagi,og líkamsstarfssemi í jafnvægi. Og ekki spillir fyrir henni að hrossum finnst hún lystug.

Munið góðir hestamenn að bíllinn ykkar er ekki betri en eldsneytið sem á hann er sett, og sama gildir um hestana ykkar. Til að þeir skili hámarksgetu verður að vanda til fóðrunar og uppfylla næringaefnakröfur. Og munið að allir hestar ættu ávallt að fá fóðrulýsi, ef ekki fitunnar vegna þá vegna þeirra ótvíræðu áhrifa sem lýsi hefur á liði og hárafar.