Fóður hækkar áfram

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en ástæðan er sögð verðhækkun á erlendum hráefnamörkuðum og veiking íslensku krónunnar. Þetta er fjórða hækkun ársins, en áður hafði verð hækkað í apríl, maí og júní. Eins og mbl.is hefur áður greint frá hafa miklir þurrkar í Bandaríkjunum orsakað lélega uppskeru og vöntun á maís og sojabaunum sem hefur hækkað verð mikið.

 

Maís og sojabaunir eru meðal aðaluppistöðu í fóðri sem selt er hérlendis og því hafa þessar hækkanir óhjákvæmilega mikil áhrif á verð söluaðila. Í samtali við mbl.is segir Eyjólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunar, að hingað til hafi verið um 10 til 30% hækkun á fóðri hjá fyrirtækinu. Mestar hækkanir hafi verið á ódýrustu vörunum þar sem hráefni þeirra hafi hækkað hlutfallslega mest.

 

Nefnir Eyjólfur sem dæmi að verðhækkun og gengisáhrif hafi leitt til þess að sojamjöl er núna 71% dýrara í innkaupum en við upphaf árs. Maís sé að sama skapi um 20% dýrari, en auk þess hafi aðrar vörur, eins og sojaolía, bygg og fiskimjöl, einnig hækkað mismikið.

 

Aðspurður hvort frekari hækkana sé að vænta sagði Eyjólfur slíkt líklegt. „Þetta [hækkanir] er ekki allt komið inn ennþá, en ég veit reyndar ekki hvað gerist á erlendum mörkuðum,“ segir hann, en gerir ekki ráð fyrir stórum fréttum fyrr en í febrúar þegar sojauppskera er í Suður-Ameríku, en þangað til muni væntanlega lítið gerast. Í dag segir hann að það sé vöntun miðað við notkun og að það eina sem menn geti gert núna sé að bíða eftir betri fréttum af uppskeru en það sem af hefur verið ári.